Synd

Spurning: Hvað þýðir synd fyrir þér?

Sri Chinmoy: Fyrir mér er synd einhvers konar ófullkomleiki eða fáfræði. Það er ekki endilega eitthvað mjög slæmt, ljótt eða ósnertanlegt. Í ferli þróunarinnar stefnum við að ná fullkomnun, en sem stendur erum við flest öll að veltast um í heimi nautna, fáfræðis og sjálfselsku. Eins lengi og við lifum í fáfræði, munum við gera ranga hluti, við munum drýgja synd. En þér má ekki finnast þú vera algerlega glataður eða hulinn myrkri. Þú ert aðeins að þróast frá litlu ljósi til meira ljóss og á endanum til algjörs frelsis frá fáfræði, ófullkomleika og synd.

Spurning: Hvernig fer maður að því að frelsast frá synd? Öðlast maður frelsi allt í einu?

Sri Chinmoy: Maður getur aðeins frelsast frá synd með því að ákalla hina ótakmörkuðu náð Guðs. Náð Guðs kemur ávallt í miklum mæli og kröftuglega, en flest mannfólk reynir ekki að meðtaka hana. Ef einstaklingurinn vill frelsa sjálfan sig frá fáfræði og ákallar Guð, þá mun hann örugglega fá lausn frá syndum fáfræðinnar. Þetta frelsi kemur hægt og bítandi í samræmi við aukna uppljómun leitandans. Þú mátt ekki búast við skjótum umbreytingum sem líkjast kraftaverkum þó það eigi til að gerast.