SriChinmoy.org
is More about Sri Chinmoy
x

Okkar leið

Það sem fram kemur er ræða sem Sri Chinmoy hélt við nemendur sína í Sri Chinmoy miðstöðinni í London, 1970.

Okkar leið er í grundvallaratriðum leið hjartans en ekki leið hugans. Það þýðir ekki að við séum að gagnrýna leið hugans. Langt frá því. Okkur finnst aðeins að leið hjartans leiði okkur hraðar að takmarki okkar. Segjum að ég vilji fara á stað 500 mílur í burtu. Ég kemst þangað með því að ganga eða fljúga, en ég kemst mun fljótar á áfangastað fljúgandi. Á svipaðan hátt, ef við notum andlega hjartað en ekki efasemdarhugann, náum við takmarki okkar miklu fyrr. Hjartað er ást. Hugurinn er mjög oft algjör ringulreið. Þegar við segjum hjartað, þá tölum við um andlega hjartað sem er hafsjór Guðlegrar ástar.

Hjartað er sérstaklega mikilvægt vegna þess að innra með því er lifandi nærvera sálarinnar. Satt er það að vitund sálarinnar finnst í öllum líkamanum, en dvalarstaður hennar er í hjartanu. Sálin hefur allt: Frið, ljós og alsælu í óendanlegu magni. Við fáum þessa Guðlegu kosti innan úr hjartanu, beint frá sálinni. Og frá hjartanu getum við flutt þá ínní hugann, til lífaflsins og til hins efnislega.

Guð er ákaflega einfaldur. Það erum við sem teljum Hann vera flókinn. Guð talar einfalt tungumál. Það erum við sem skiljum Hann ekki. Við erum öll heyrnarlaus. Við höfum verið heyrnarlaus í árþúsund. Aumingja Guð. Hann hefur talað látlaust og óþreytandi, en við höfum ekki tíma til að hlusta á Hann.

Okkar leið er leið einfaldleikans. Barn er einfalt; það elskar móður sína. Það þarf ekki að elska neinn annan. Móðirin er allur heimur þess. Það tileinkar sér móður sína. Ef móðirin biður barnið um að gera eitthvað, þá hlustar það á hana. Barn er svo einfalt að það reynir að gera allt til þess eins að geðjast móður sinni. Og með því að geðjast móðurinni er það að gera hár rétt og nálgast sitt hæsta takmark.

Í hinu venjulega lífi, ef einhver elskar aðra manneskju þá eyðir hann mestum tíma sínum með henni. Hann ver dýrmætum tíma sínum með henni. Ef það er raunveruleg mannleg ást, ekki Guðleg ást, þá lætur hann stundum eftir kröfum hins aðilans, þótt þær séu fjarstæðukenndar. Hann gefur eftir vegna þess að þau hafa bundist innri og ytri böndum í krafti ástar þeirra. Ef einhver elskar aðra manneskju, þá er sá sami jafnvel tilbúinn að fórna dýrmætri visku sinni.

Í andlega lífinu er þessu öðruvísi farið. Guðleg ást bindur okkur aldrei heldur stækkar hún okkur og frelsar okkur. Þegar við sjáum og finnum að við erum að öðlast lausn, þá finnum við innra með okkur Guðlega skuldbindingu til að gera eitthvað fyrir okkar Innri Leiðbeinanda. Hvernig getum við verið fáskiptin við Þann er gefið hefur okkur allt, Þann er hefur fært okkur boðskap Guðlegrar Ástar og Samúðar? Er það mögulegt fyrir okkur að bjóða Honum ekkert í staðinn? Ef við höldum kyrru fyrir í ytra lífinu munum við aðeins reyna að hrifsa allt og eignast allt, jafnvel það sem tilheyrir öðrum. En, ef við lifum í sálinni, reynum við stöðugt að gefa allt sem við höfum og erum til Innri Leiðbeinandans. Guðleg ást þýðir að gefa af sér.

En bara það að gefa, bara það að bjóða er ekki nóg. Það þarf að vera gert af eldmóði og ákafri innri þrá. Við gefum til Innri Leiðbeinandans í sjálfum okkur og öðrum. Þegar við gefum til einhvers annars, verður okkur að finnast að við séum að gefa til þess Guðlega í þeirri manneskju, til hins Æðsta í henni sem þarfnast þessarar hjálpar frá okkur. Þegar við bjóðum Guðlega ást til einhvers, verðum við að gera það fúslega og innilega. Meðan við gefum, megum við ekki láta okkur finnast að við séum að gera hinum aðilanum mikinn greiða og að við séum yfir hann hafin af því að við erum í aðstöðu til að hjálpa. Okkur verður að finnast að Guð hafi veitt okkur stórt tækifæri til að þjóna Honum og við ættum að vera þakklát þeirri manneskju er hefur fært okkur í þær aðstæður að geta þjónað Guði í henni. Við verðum að finna fyrir þakklæti að Hann hefur kosið okkur sem Hans útvöldu verkfæri, þar sem Hann hefði auðveldlega getað valið einhverja aðra. Við verðum að sýna stöðugt þakklæti fyrir að Hann hafi getað fundið starf handa okkur. Slík helgun er einlæg þjónusta okkar.

Síðan kemur undirgefni. Þessi undirgefni er ekki undirgefni þræls við húsbónda sinn. Venjulegum húsbónda finnst þrællinn búa yfir mörgum göllum, á meðan hann sjálfur sé ávallt fullkominn. En hið Æðsta er ekki þannig. Því finnst ófullkomleiki okkar vera Sinn ófullkomleiki. Þegar Það finnur mistök í eðli okkar, finnst Því þetta vera Sín mistök. Guð mun aldrei finnast Hann vera fullkominn fyrr en við erum fullkomin. Guð er alvitur, almáttugur og allsstaðar; það er satt. En þegar það er spurning um fullkomnun sköpunar á jörðinni, finnst Guði hann enn vera ófullkominn í mér, í þér, í okkur. Skilaboðin um fullkomna fullkomnun hafa enn ekki litið dagsins ljós á jörðinni. Við gefum okkur undir Guð af öllu hjarta, vitandi fullkomlega að það sem við höfum er lítið sem ekkert og það sem við erum er lítið sem ekkert. Ef við gefum tóm okkar til Hans verðum við útvalin verkfæri hins Æðsta og leyfum fullkomleika Þess að vaxa í okkur.

Ást, uppfylling og Guð fara alltaf saman. Guð mun aldrei verða fullkomlega ánægður með eitthvað sem vantar að klára, sem vantar að skilja, sem vantar að uppfylla, sem vantar að birta. Hann vill frá okkur uppljómun, opinberun, guðlega birtingu og fullkomnun. Ef þessir hlutir taka sér ekki mynd í þessari jarðvist, þá verðum við að taka fleiri jarðvistir. En Guð mun aldrei leyfa neinum að vera endalaust án uppljómunar og lífsfyllingar. Í dag er er þinn tími kominn til að skynja Guð. Á morgun verður tími fyrir vin þinn til að skynja Guð. Og daginn eftir það er tími fyrir einhvern annan til að skynja Guð. Fyrir hvern einstakling er stund sem við köllum ‘‘Guðs útvalda stund.’’ Á Guðs útvöldu stund mun einstaklingurinn skynja Guð.

Okkur finnst að leið okkar sé auðveldari og árangursríkari á þann hátt að við þurfum ekki að lesa milljónir bóka til að vita hver sannleikurinn sé. Við þurfum ekki að að þjálfa huga okkar, daginn út og daginn inn til að vita hvernig sannleikurinn lítur út. Nei! Sannleikurinn er innra með okkur, og hann grátbiður okkur um að fá að stíga fram. En því miður höfum við haft dyrnar lokaðar og leyfum ekki sannleikanum að koma út.

Hvernig getum við hleypt sannleikanum út úr fangaklefanum? Það er í gegnum Ást. Ást til handa hverjum? Ást til Guðs. Og hver er Guð? Guð er hinn Æðsti uppljómaði hluti okkar. Guð er ekkert og enginn annar. Ég hef höfuð og tvo fætur. Segjum svo að höfuð mitt sé fulltrúi þess Æðsta í mér og fætur mínir þess lægsta í mér, það er fáfræði minnar. Ég veit að bæði það Hæsta og það lægsta tilheyra mér. Það lægsta þarf að fara upp í það Hæsta til að öðlast umbreytingu, lausn og uppfyllingu. Það Hæsta þarf að fara niður í það lægsta til að öðlast opinberun og guðlega birtingu.

Á okkar leið er það bráðnauðsynlegt að geta samsamað sér. Það Hæsta verður að samsama sér því lægsta og það lægsta verður að samsama sér því Hæsta. Það Hæsta finnur ávallt einingu með því lægsta en það er því lægsta sem finnst ákaflega erfitt að vera eitt með því Hæsta vegna hræðslu sinnar, efa, öfundsýki og svo framvegis.

Hverskonar skuldbindingar er þörf til að fylgja okkar leið? Þetta er ekki samskonar skuldbinding og í öðrum andlegum eða menningarlegum samtökum. Í þeim samtökum gætuð þið þurft að leggja til reglulega greiðslu. Það er ekki það sem ég á við þegar ég bið ykkur að skuldbinda ykkur. Það sem ég segi er að, ef þið sjáið eitthvað í mér, ef þið sjáið eða finnið ljós í mér og ef þið viljið þá fylgja okkar leið getið þið það. Það verður einskis gjalds krafist. Þið þurfið ekki að gefa mér 500kr eða 1000kr eða eitthvað því um líkt. Nei! Hérna er það spurning um ykkar eigin andlegu þrá, hversu einlæg og regluföst þið getið verið í ykkar andlega lífi. Ef þið eruð ekki einlæg, þá munið þið ekki geta hlaupið hratt yfir. En, ef þið eruð einlæg og helgið ykkur andlega lífinu, þá munið þið hlaupa mjög hratt yfir. Skuldbindingin sem ég bið um á okkar leið er regluföst hugleiðsla og andleg þrá, sem er ekkert annað en einlægt innra ákall. Þetta er það eina sem ég bið um frá nemendum mínum.

Okkar leið, leið hjartans er líka leið samþykkis. Við verðum að samþykkja heiminn. Ef við förum inn í hellisskúta í Himalæjafjöllum eða sitjum upp á fjallstindi og köllum eftir okkar eigin afrekum og uppfyllingu, þá ætlum við ekki að gera neitt fyrir heiminn. Við munum hugsa með okkur: Ég mun borða eins mikið og ég vil, og á meðan læt ég bræður mína svelta. Það er ekki gott. Ef ég bý yfir raunverulegum náungakærleika, þá mun ég sjá til þess að bræður mínir borði með mér. Aðeins ef við borðum saman munum við öðlast raunverulega lífsfyllingu.

Ef þetta er heimfært upp á andlega lífið, þá finnst alvöru andlegum Meisturum það vera skylda þeirra að snæða með mannkyninu og gefa því af sinni andlegu fæðu. Ef mannkynið sem heild vill ekki borða eins og það ætti að gera og ef margir eru ennþá sofandi og hafa ekki fundið til andlegs hungurs, hvað getur þá andlegur Meistari gert? En við einlæglega hungraða leitendur segir Meistarinn, ‘‘Maturinn er tilbúinn. Við skulum borða saman.’’

Á leið okkar, leið samþykkis, verðum við að gera okkur grein fyrir því að jörðin er langt frá fullkomnun. En þar til við samþykkjum vitund jarðarinnar, hvernig eigum við þá að ná að fullkomna hana? Ef einhver líður kvalir, þá verð ég að hlúa að honum. Aðeins þá mun sársaukinn hverfa. Á sama hátt, ef jörðin er ófullkomin á einhverjum ákveðnum stað, þá verð ég að snerta hana með minni andlegu þrá og umhyggju. Aðeins þá mun ég geta umbreytt ófullkomleikanum. Svo lengi sem vitund jarðarinnar er ekki fullkomlega uppljómuð, mun ég reyna að vera á jörðinni til þjónustu við mannkynið með innri vitund minni.